.................................................
Klakinn... kaldur og hressandi

sunnudagur, maí 20, 2007

 
Biðin styttist. Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar á miðvikudaginn og það er ekki laust við að ég sé orðinn frekar spenntur enda mínir menn í Liverpool að spila gegn AC Milan. Vonandi bara að leikurinn verði endurtekinn frá því fyrir 2 árum síðan.

Annars er nú nóg að gera fram að því. Prófavika hjá krökkunum mínum í 6-A og því nóg að gera í því að fara yfir próf. Svo á morgun verð ég aðstoðardómari í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu. Örugglega margir sem finnst þetta engan veginn spennandi en ég er nokkuð spenntur og þetta er í fyrsta skipti sem ég fæ svona "alvöru" leik. Verður spennandi...
 

miðvikudagur, maí 16, 2007

 
Hvaða stjórn haldið þið að verði komin við völd hér á landi innan skamms ?

VG og D ?
S og D ?
B, S og VG ?
B og D ?
D, B og F ?

Ég á mér eina óskastjórn, eina stjórn sem ég myndi sætta mig vel við, aðra sem ég myndi sætta mig sæmilega við og tvær sem ég myndi alls ekki sætta mig við. Tell me your thoughts !
 

föstudagur, maí 11, 2007

 
Góð setning : Það er ekkert annað en illmennska að byrja á því að afnema hátekjuskatt áður en hafist er handa við að bæta hag aldraðra og öryrkja !

Snýst þetta ekki einfaldlega um rétta forgangsröðun ? Sjálfstæðismenn hafa sýnt hver forgangsröðun þeirra er og hún er engan veginn sanngjörn. Eigum við ekki að leyfa öðrum að komast að ?
 

miðvikudagur, maí 09, 2007

 
Greinilegt að maður er veikur heima þar sem þetta er þriðja skiptið sem ég blogga í dag !

En mér datt eitt í hug, svona í framhaldi af þeim fréttum að stórhljómsveitirnar Á móti sól og Í svörtum fötum verða á þjóðhátíð. Væri ekki bara þjóðráð að semja við annara þessara hljómsveita að hún myndi semja þjóðhátíðarlagið 2007 ?
 
 
Ekki nóg með það að maður vaknaði veikur í morgun, heldur sá maður það þegar maður opnaði tölvuna að fjandans Framsóknarflokkurinn tók langstökk í skoðanakönnun - eitthvað sem ég vona svo sannarlega að haldi ekki fram á kjördag.

Eitt með ríkistjórnina. Í auglýsingum B og D flokka núna er mikið talað um að við séum í þessu og þessu sæti á listum SÞ og fleiri stofnana sem mæla lífskjör og annað. En hvernig stendur þá á því, að ef við erum við toppinn á þessum listum, að fólk býr á götunni hér á landi og enn fleiri búa við mikla fátækt ? Getur það verið vegna þess að auðnum hefur verið misskipt all verulega og áherslan verið lögð á að gera þá ríkari enn ríkari í stað þess að byrja á því að aðstoða þá sem minna mega sín.

Árni Páll Árnason frambjóðandi SF ritar á heimasíðu sína grein þar sem koma fram margar áhugaverðar tölur. Þar kemur m.a. fram að kaupmáttur hefur verið mestur hjá þeim 10% þjóðarinnar sem best hafa það, en minnstur hjá þeim 20% sem verst hafa það ? Getur þetta á einhvern hátt talið sanngjarnt ?

Guðmundur Steingrímsson segir að hann líti á jafnaðarstefnuna þannig að enginn sé skilinn eftir, þ.e. allir fá far og enginn er skilinn eftir fyrir aftan hina. Er ekki kominn tími til að taka alla með og hætta að skilja þá eftir sem hafa það verst ? Það gerum við með því að setja X við S og skipta þar með út í þessari ríkisstjórn.
 
 
Í þessu viðtali við Björn Inga Hrafnson, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins í borginni, er verið að fjalla um fundi - eða öllu heldur fundaleysi fjölskyldunefndar ríkisstjórnarinnar. Í viðtalinu segir Björn Ingi að nefndin hafi ekki endilega verið sett á laggirnar til að koma með tillögur sjálf. Til hvers var hún þá stofnuð ?

Einnig kemur fram að enginn fundur hafi verið haldinn í nefndinni í 13 mánuði en samt talar Björn Ingi um ýmsa hluti sem unnið hafi verið að, og segir að ríkisstjórnin hafi fjallað um mörg mál sem hafa orðið að veruleika á kjörtímabilinu. Hvað kemur það störfum nefndarinnar við að ríkisstjórnin hafi rætt málin, þegar augljóslega þau hafa ekki verið rædd eða unnin í nefndinni ?

Getur verið að Björn Ingi sé að reyna að fela fundaleysi nefndarinnar með því að benda á það sem gert hefur verið í málaflokknum ? Björn Ingi á engan þátt í því, þar sem nefndin hefur ekki fundað - tja nema að hann hafi verið að vinna að málum án þess að ræða þau eða vinna í nefndinni sem hlýtur að vera einhvers konar stjórnsýslubrot ?

Getur verið að Björn Ingi sé að reyna að kæfa þessa umræðu framyfir kosningar ?
 

þriðjudagur, maí 08, 2007

 
Hver fær hita og flensu þegar komið er fram á sumar, að ég tala nú ekki um á degi sem þessum þar sem sólin skín sem aldrei fyrr. Auðvitað ég...

Er að fylgjast með borgarafundi frá Egilsstöðum sem er í beinni á RÚV en þar eru menn frá öllum flokkum til svars um hin ýmsu málefni.

Jónína Bjartmarz hjá Framsókn gerði í brækurnar í fyrstu umferð eins og henni einni er lagið og þó Valgerður Sverrisdóttir sem leysti hana af fyrir flokkinn í miðjum umræðum hafi staðið sig ögn betur er ljóst að Framsóknarflokkurinn er engan veginn í stakk búinn til að koma að stjórn landsins næstu 4 ár.

Kristján Þór Júlíusson frá Sjálfstæðisflokki stóð sig ágætlega og var nokkuð skýr og hreinn og beinn í svörum, annað en Guðfinna Bjarnadóttir sem tók fyrri hluta umræðnanna en hún sannfærði mig engan veginn í umræðunni um umhverfismál - sérstaklega ekki þegar hún sagðist vera umhverfissinni en hægrimaður, líkt og það gæti engan veginn farið saman.

Róbert Marshall tók fyrri partinn hjá Samfylkingu og virkaði frekar stressaður í byrjun en kom stefnu flokksins í umhverfismálum nokkuð vel á framfæri. Kristján Möller tók svo við og stóð sig vel, svaraði skýrt og virkarði sannfærandi og trúverðugur.

Kolbrún Halldórsdóttir var fyrst fyrir VG og var ágæt, en mér fannst hún samt ekki mjög áberandi í umræðunum - annað en Guðfríður Lilja sem tók við og var mjög ákveðin og svaraði vel fyrir stefnu VG í málaflokkunum sem rætt var um.

Hinir tveir flokkarnir, Frjálslyndi flokkurinn og Íslandshreyfingin hoppuðu svo nokkurn veginn bara með. Íslandshreyfingin var auðvitað á heima velli í umhverfismálunum og stefnu þeirra þekkja auðvitað allir hvað það varðar þar sem það er í raun eina málefnið sem þau hafa rætt í þessari baráttu. Frjálslyndi flokkurinn var aftur á móti ekki á heimavelli og var Sigurjón Þórðarson aðallega í því að kalla fram í með "sniðug" komment þegar stjórnarliðarnir voru að tala.
 

mánudagur, maí 07, 2007

 
"Eina breytingin á samgöngum við Eyjar í sextán ár eru ný sæti í sjónvarpssal Herjólfs og þau eru verri en þau sem voru fyrir."

Snilldar komment frá Róberti Marshall
 

föstudagur, maí 04, 2007

 
Eygló Harðardóttir hefur oftar en ekki farið mikinn á ritvellinum. Rétt er að minnast í því samhengi “skemmtilegrar” greinar hennar þar sem hún taldi upp fyrr í vetur hverjir gætu talist Vestmannaeyingar og hverjir ekki. Þeir sem hafa litið inn á eyjar.net nú í morgun hafa væntanlega séð grein hennar þar sem hún lætur gamminn geysa um Vinstri-Græna. Ekki er ég nú heitur stuðningsmaður Vinstri-Grænna en grein Eyglóar er gott dæmi um leiðina sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa farið í kosningabaráttunni, það er að nota krafta sína í að benda á það sem þeim þykir miður hjá anstæðingum sínum í stað þess að fjalla um sín málefni.

Eygló telur greinilega að ef Vinstri Grænir fái að ráða þá verði Leifsstöð minnkuð og svarthvít sjónvörp ráðandi á markaðnum. Það skyldi þó aldrei vera að Eygló skyldi vera að reyna að beina athygli frá málefnafátækt Framsóknarflokksins því málefnin þar eru annaðhvort copy/paste frá því fyrir 4 árum síðan eða þá tekin frá öðrum flokknum sbr. Loforð um afnám stimpilgjalda og ókeypis tannlæknaþjónustu fyrir börn.

Væri Eygló ekki nær að koma með eitthvað sem hún vill gera á næstu 4 árum vilji svo illa til að hennar flokkur fái að ráða ? Þá kannski nær hún til einhverra af þeim “Eyjamönnum” sem kjósa í Suðurkjördæmi…
 

fimmtudagur, maí 03, 2007

 
Ríkisstjórnarflokkarnir eru (að því er þeir telja) gríðarlega góðir í því að spá fyrir um hvernig framtíðin verður ef þeir fá ekki að ráða í enn eitt skiptið. Þeir gera lítið annað þessa dagana en það að fá hina og þessa "spekinga" til að segja til um hversu glatað lífið verður ef aðrir komast til valda. Þeir minnast hins vegar ekki á það (eðlilega kannski) hversu mikið er glatað undir þeirra stjórn. Þeir þurfa því greinilega á hjálp að halda við að rifja það upp. Byrjum á velferðarmálum :

- Um 170 börn með geðræn vandamál hafa verið á biðlista í allt að 18 mánuði eftir greiningu og þjónustu.

- Um 400 aldraðir bíða í brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu. Sem betur fer eru amma mín og afi ekki í þeirri stöðu. Hvað með ömmu þína eða afa ?

- 3145 manns eru á ýmis konar biðlistum á Landsspítalanum. Þar á meðal eru t.d. hjartasjúklingar í bið eftir aðgerð, börn með þroskafrávik sem bíða eftir greiningu og aldraðir sem bíða eftir ýmis konar meðferð.

- Samkvæmt tölum frá hagstofunni eru 30.000 Íslendingar sem lifa undir fátætkarmörkum, og samkvæmt svari forsætisráðherra við fyrirspurn frá Helga Hjörvar eru 5300 fátæk börn á Íslandi. Ég fullyrði það að þessar tölur munu ekki lækka við áframhaldandi stjórn Framsóknar og Sjáfstæðisflokks. Fátækum hefur fjölgað undanfarin ár hér á landi enda hafa efnahagslegar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar að mestu leyti komið þeim ríkari til góða. Lækkun tekjuskatts kom auðvitað mörgum til góða en afnám hátekjuskatts hefði mátt bíða þar til búið var að bæta kjör þeirra sem verst hefðu það. En þetta er gott dæmi um forgangsatriði núverandi ríkisstjórnar í efnahagsmálum - það eru hinir ríkari sem hafa forganginn á meðan hinir fátækari eiga að bíða rólegir.

- Samkvæmt könnun eru 8500 börn á Íslandi sem ekki hafa farið til tannlæknis í 3 ár ! Já þetta er satt. Því ætti ekkert að koma á óvart að tannheilsa barna er miklu verri en barna á hinum Norðurlöndunum. Sífellt fleiri dæmi eru um börn sem eru að byrja í skóla séu með allar tennurnar skemmdar.

- Þetta er brot af dæmum sem miður hafa farið í velferðarmálum...

Samkvæmt könnun frá Capacent Gallup voru flestir eða 29,1% sem treystu Samfylkingunni best til aðgerða í velferðarmálum. Það voru álíka margir sem treystu Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum samanlagt, enda held ég að landsmenn séu fyrir löngu komnir með nóg af aðgerðaleysi ríkisstjórnarflokkunum í málaflokknum.

Samfylkingin hefur komið með trúverðugar og raunhæfar lausnir í þessum málum sem ég hef nefnt hér að ofan, sem og fleiri málum sem ríkisstjórnin hefur trassað í sinni valdatíð. Því tel ég að ef þú vilt sjá breytingar í þessum málum sé einfaldast að setja X við S !
 


Klakinn - Grunnskólakennari og knattspyrnuþjálfari

Mail : smarij@kopavogur.is

Slinger.tk

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

maystar designs | maystar designs | maystar designs